„Tvennt má segja að staðið hafi upp úr í starfsemi Mímis á þessu viðburðaríka ári“, sagði Sólveig Hildur Björnsdóttir framkvæmdastjóri Mímis þegar að hún kynnti ársskýrslu félagsins fyrir árið 2021 á aðalfundi Mímis sem fram fór í dag, 7. júní 2022. „Annars vegar öryggis- og gæðamál með tilheyrandi úttektum og viðurkenningum sem leggja grunninn að starfi Mímis. Hins vegar ráðstafanir Mímis vegna heimsfaraldurs COVID-19, óveðurs og náttúruvár en starfsfólk sýndi eftir sem áður útsjónarsemi í þjónustu við viðskiptavini við síbreytilegar og krefjandi aðstæður.“
„Þegar litið er yfir árið 2021 er mér þakklæti efst í huga. Kennarar og nemendur Mímis sýndu mikla þolinmæði við rask á námi og kennslu vegna sóttvarnatakmarkana. Á sama tíma höfum við fengið jákvæð viðbrögð við nýjum tæknilausnum sem jafnframt má sjá í aukinni notkun.“
Mímir hlaut í þriðja sinn viðurkenningu Creditinfo sem framúrskarandi fyrirtæki árið 2021 auk þess að uppfylla fjórða árið í röð ströng skilyrði Viðskiptablaðsins og Keldunnar til að teljast fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri árið 2021. Aðeins 2-3% allra virkra fyrirtækja á Íslandi hljóta þessar viðurkenningar ár hvert.
„Um leið og ég þakka stjórn Mímis fyrir samstarfið á árinu vil ég sérstaklega þakka starfsfólki Mímis fyrir þann dugnað og eljusemi sem það sýndi á því krefjandi ári sem 2021 var. Ég hef fulla trú á því að Mímir eigi sér bjarta framtíð með svo öflugt starfsfólk í fararbroddi,“ sagði Sólveig Hildur.
„Nú horfum við til bjartari tíma, byggjum framtíðina á sífelldri þróun starfseminnar í takti við nýjungar sem og ríkulegum mannauði Mímis. Saman erum við hreyfiafl til góðra verka,“ sagði Sólveig Hildur.
Stjórn var endurkjörin en hana skipa Eyrún Björk Valsdóttir frá ASÍ sem jafnframt er formaður stjórnar, Sólveig Lilja Snæbjörnsdóttir frá VR, varaformaður, Ragnar Ólason frá Eflingu, Lilja Sæmundsdóttir frá FHS og Eyþór Árnason frá Stéttarfélaginu Hlíf. Til vara eru Selma Kristjánsdóttir frá VR, Hilmar Harðarson frá Samiðn og Sólveig Anna Jónsdóttir frá Eflingu.
Lesa má ársskýrslu og ársreikninga Mímis - símenntunar hér.
Frá aðalfundi Mímis 2022.