Aðalfundur Mímis fór fram 12. maí síðast liðinn í húsnæði Mímis að Höfðabakka 9. Á fundinum var farið yfir starfsárið 2022 sem jafnframt er tuttugasta afmælisár Mímis. Starfsemi Mímis á tuttugasta afmælisárinu óx og dafnaði en sjaldan hafa fleiri sótt sér þjónustu hjá Mími. Líkt og öll fyrri ár kappkostaði Mímir að bjóða nemendum, kennurum og samstarfsaðilum faglega og skilvirka þjónustu. Starfsfólk Mímis var þar í fararbroddi og varð vel ágengt.
„Allir njóta góðs af því að byggja upp menntun í samfélaginu. Aukin þekking skilar sér beint til samfélagsins, vinnustaðarins og einstaklinganna. Við leggjum lóð á vogaskálarnar við að auka menntunarstig þjóðarinnar,“ sagði Sólveig Hildur Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Mímis á aðalfundinum. „Starfsfólk Mímis hefur með dugnaði og ósérhlífni náð miklum árangri við að þróa nýjungar, skipuleggja fjölda námskeiða og leggja metnað sinn í að veita góða þjónustu. Áhersla hefur verið lögð á að hafa gæði náms og þjónustu í hámarki. Þetta kunna nemendur okkar og viðskiptavinir vel að meta og verðum við vör við mikla tryggð af þeirra hálfu við Mími. Fyrir það erum við þakklát.“
Í janúar 2022 veitti Menntamálastofnun, fyrir hönd mennta- og menningarmálaráðherra, Mími endurnýjun á viðurkenningu fræðsluaðila. Mímir hefur talist vera viðurkenndur fræðsluaðili í áraraðir en sótt er um endurnýjun viðurkenningarinnar á þriggja ára fresti.
Mímir hlaut í fjórða sinn viðurkenningu Creditinfo sem framúrskarandi fyrirtæki árið 2022 auk þess að uppfylla fimmta árið í röð ströng skilyrði Viðskiptablaðsins og Keldunnar til að teljast fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri árið 2022.
„Ljóst er að áfram verður þörf á framhaldsfræðslu á Íslandi og þar gegna símenntunarmiðstöðvar um land allt mikilvægu hlutverki. Mímir er þar ekki undanskilinn enda stærsta símenntunarmiðstöðin. Í síbreytilegu samfélagi þarf stöðugt að endurskoða áherslur og aðferðir í takt við þarfir atvinnulífsins. Áhersla á nám á vinnustað hefur farið vaxandi og hefur Mímir lagt sig fram um að mæta þeirri þörf,“ sagði Sólveig enn fremur. En nú stendur yfir stefnumótin sem unnin er í nokkrum skrefum og gert ráð fyrir að niðurstöður liggi fyrir við lok árs 2023.
Sólveig þakkaði að lokum stjórn, starfsfólki Mímis, viðskiptavinum og samstarfsaðilum fyrir mjög góða samvinnu á árinu og stjórn, starfsfólki og kennurum fyrir öflugt og metnaðarfullt starf.
Lesa má ársskýrslu og ársreikninga Mímis hér.