Í tilefni af Degi náms- og starfsráðgjafar í dag, kynnum við árlegt samstarf Mímis og Háskóla Íslands um vettvangsnám og starfsþjálfun nemenda í meistaranámi í náms- og starfsráðgjöf við Háskóla Íslands sem fram fer hjá Mími.
Annars vegar er um að ræða starfsþjálfun á fyrra ári meistaranámsins þar sem gert er ráð fyrir að nemendur komi í um það bil 25 klukkustunda heimsókn til Mímis og hins vegar vettvangsnám þar sem nemandi á síðara ári dvelur hjá Mími og starfar náið undir handleiðslu náms- og starfsráðgjafa í samtals 200 klukkustundir.
Þessa vikuna eru þær Laufey Elísa Hlynsdóttir og Sylvía Sól Geirdal Pétursdóttir í heimsókn í Mími og fylgja ráðgjöfum eftir við störf þeirra.
Hjá Mími starfa fimm náms- og starfsráðgjafar sem sinna fjölbreyttum verkefnum dags daglega. Náms- og starfsráðgjafar aðstoða einstaklinga við ákvarðanatöku um nám eða starfsþróun. Þeir veita einnig þjónustu vegna raunfærnimats.
Ef þú telur að þú, eða einhver nálægt þér, geti nýtt sér þjónustu náms- og starfsráðgjafa er hægt að panta viðtal hér, https://www.mimir.is/is/radgjof/nams-og-starfsradgjof.
Viðtöl við einstaklinga eru þeim að kostnaðarlausu.
Fyrsti Dagur náms- og starfsráðgjafar á íslandi var haldinn árið 2006 og í ár verður haldið upp á hann í sextánda sinn. Markmið dagsins er að vekja athygli á mikilvægi náms- og starfsráðgjafar fyrir alla og þeirri fagþjónustu sem náms- og starfsráðgjafar veita.