Mímir hefur fengið staðfestingu á að starfsemin standist evrópskar kröfur um gæði fræðslustarfs, raunfærnimats og náms- og starfsráðgjafar. Um er að ræða endurnýjun á EQM+ gæðavottun fræðsluaðila (European Quality Mark). Mímir hlaut fyrst gæðavottun EQM árið 2012.
Fræðslumiðstöð atvinnulífsins er vottunaraðili og EQM og EQM+ á Íslandi sem er gegnsætt matsferli fyrir fræðsluaðila til að meta starfshætti sína út frá viðurkenndum gæðaviðmiðum. EQM og EQM+ er hannað til að mæta síauknum kröfum um gagnsemi náms og sameiginleg gæðaviðmið fyrir fræðsluaðila utan hins formlega skólakerfis. Vottunin tekur mið af gæðum þjónustunnar sem fræðsluaðili veitir, innri gæðastjórnun og verklagsreglum fræðsluaðila, sem og hvernig núverandi starfshættir samræmast viðurkenndum gæðaviðmiðum.
Byggt er á sjálfsmati sem er yfirfarið af viðurkenndum úttektaraðila, StarfsGæði ehf , sem kemur einnig með ábendingar um gæðamál og umbætur meðan á úttektarferlinu stendur.