Þann 29. maí hófst vinna við hæfnigreiningu starfs vaktstjóra kaffihúsa- og skyndibitastaða þegar stýrihópur, skipaður sérfræðingum úr atvinnulífinu, kom saman í Mími. Verkefnið er að fullu fjármagnað af Starfsafli og Eflingu stéttarfélagi en framkvæmd þess er í höndum Mímis. Hæfnigreining starfs vaktstjóra er ein af sex hæfnigreiningum sem Mímir hefur tekið að sér að framkvæma í samvinnu við Starfsafl og Eflingu.  

Stýrihópurinn hefur meðal annars það hlutverk að leggja línur og vera ráðgefandi varðandi hæfnigreiningu starfsins sem framundan er en stýrihópinn mynda fræðslustjóri Eflingar og framkvæmdastjóri Starfsafls auk stjórnenda mannauðs frá Dominos, Ikea, Olís og Te og kaffi.

Hæfnigreining starfa felst í að kortleggja og skilgreina þá hæfni sem mikilvægt er að starfsmaður búi yfir til að árangur náist í starfi. Þess utan geta hæfnigreiningar starfa nýst á margvíslegan máta, s.s:

·         Grunnur fyrir gerð námsefnis – og námsbrauta.

·         Við skipulag þjálfunar og gerð fræðsluáætlana.

·         Við gerð starfsþróunarstefnu og starfsþróunaráætlana.

·         Við starfsmannaval og ráðningar.

·         Við gerð starfslýsinga.

·         Sem viðmið um frammistöðu í starfi sem nota má í frammistöðumati.

Sérfræðingar hjá Mími hafa réttindi til þess að vinna hæfnigreiningar starfa eftir viðurkenndri aðferð sem Fræðslumiðstöð atvinnulífsins hefur innleitt hér á landi. Aðferðin er því mjög gagnleg, skilvirk leið til að koma auga á nauðsynlega hæfni og er þá persónuleg hæfni ekki undanskilin en hún er eitt af því mikilvægasta hjá öflugum starfsmanni.