„Þekking á sér engin landamæri. Við þurfum sífellt að tileinka okkur ný vinnubrögð og búa okkur undir nýja tækni og nýja siði. Á nýyfirstaðinni vorönn tók starfsemi Mímis og skólastarf miklum breytingum á skömmum tíma í kjölfar samkomubanns vegna Covid-19,“ sagði Sólveig Hildur Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Mímis, þegar hún ávarpaði nemendur og aðra viðstadda við útskrift Mímis sem fram fór við hátíðlega athöfn í Grafarvogskirkju þann 19. júní þar sem 104 nemendur útskrifuðust.
„Á undraverðum tíma var fjarkennsla tekin upp hjá Mími í námsbrautum sem áður voru kenndar í staðnámi. Þá var nánast öll íslenskukennsla fyrir útlendinga færð í fjarnám og var það krefjandi verkefni sem þó tókst vel að okkar mati,“ sagði Sólveig Hildur og hrósaði starfsfólki, kennurum og nemendum fyrir aðdáunarvert frumkvæði og seiglu við að mæta nýjum kröfum um stafræn samskipti.
„Það er aldrei of seint að skrá sig í nám og það er alveg rétt að hjá Mími verður þú meira,“ sagði Steinunn Erna Margeirsdóttir, annar tveggja útskriftarnemenda sem flutti ávarp á útskriftinni. Steinunn Erna útskrifaðist úr Menntastoðum en auk hennar ávarpaði samkomuna Ágústa Valdís Svansdóttir, útskriftarnemandi úr Félagsliðabrú. Báðar minntust á þá valdeflingu sem fælist í því að sækja sér menntun þó á fullorðinsár væri komið og hve mikið þær hefðu komið sjálfum sér á óvart í náminu.
Mímir óskar öllum nemendum til hamingju með áfangann og færir þeim og fjölskyldum þeirra hinar bestu óskir um gleðilegt sumar og gæfuríka framtíð.