Í dag, sunnudaginn, 20. október, fögnum við degi náms- og starfsráðgjafa. Dagurinn hefur verið haldinn hátíðlegur af Félagi náms- og starfsráðgjafa síðan 2006 og að sjálfsögðu vekjum við í Mími athygli á þessum degi. Hjá Mími starfa fjórir náms-og starfsráðgjafar sem aðstoða einstaklinga við að taka ákvarðanir varðandi nám eða starfsþróun. Þeir veita einnig þjónustu vegna raunfærnimats félagsliða, félags- og tómstundaliða, leikskólaliða og stuðningsfulltrúa ásamt raunfærnimati í fagnámi verslunar og þjónustu.


„Meginmarkmið náms- og starfsráðgjafar er að efla vitund einstaklinga um hæfileika sína, viðhorf og áhuga þannig að þeir geti notið sín í námi og starfi. Ráðgjöfinni er ætlað að auðvelda fólki, á hvaða aldri sem er og við hvaða aðstæður sem er, að átta sig á styrkleikum sínum, færni og áhuga til að eiga hægara með að ákveða stefnu í námi og starfi. Náms- og starfsráðgjöf er lögbundin þjónusta og mikilvægt að tryggja aðgengi að henni, hvar sem maður er staddur á sínum náms- og starfsferli.“

Viðtölin eru einstaklingum að kostnaðarlausu og er ráðgjöfin fyrst og fremst ætluð einstaklingum með stutta formlega skólagöngu og er fjármögnuð af Fræðslumiðstöð atvinnulífsins.

Markmið ráðgjafa Mímis er að:

  • veita upplýsingar um nám, starfsþróun og raunfærnimat
  •  veita aðstoð við gerð ferilskrár og kynningarbréfs
  • veita aðstoð við að skipuleggja starfsleit
  • veita leiðsögn um góð vinnubrögð og skipulag í námi
  • veita upplýsingar og aðstoð við að styrkja stöðu á vinnumarkaði