Aðalfundur Mímis var haldinn í húsakynnum Mímis að Höfðabakka 9, þriðjudaginn 14. maí síðast liðinn.
„Árið 2023 var ár mikilla breytinga hjá Mími þar sem gæði og umbætur sátu í fyrirrúmi. Fagteymi voru stofnuð utan um stærstu málaflokkana í starfseminni. Þau unnu að nýsköpun og þróun í takti við niðurstöður stefnumótunar frá árinu á undan. Sérstaklega var horft til þess að aðlaga þjónustu, nám, námsumgjörð og framboð framhaldsfræðslunnar að þörfum aðflutts fólks með annað móðurmál en íslensku.“ segir Sólveig Hildur Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Mímis í ársskýrslu Mímis 2023 sem hún kynnti á aðalfundinum.
„Þann 7. september árið 2023 hélt Mímir upp á 20 ára afmæli sitt í húsakynnum skólans. Á þessum 20 árum hefur mikið vatn runnið til sjávar. Óhætt er að segja að mikil gróska hafi ríkt hjá Mími í gegnum árin. Starfsemin hefur vaxið og dafnað og hafa sjaldan fleiri sótt sér þjónustu hjá okkur.“
„Ég er stolt yfir því að fá vera hluti af Mímishópnum og er ég þakklát hverri og einni manneskju sem hefur lagt sitt af mörkum til Mímis. Ég þakka stjórn og eiganda Mímis, öllu starfsfólki, bæði núverandi og fyrrverandi, kennurum, nemendum og öllum samstarfsaðilum fyrir öflugt og metnaðarfullt starf á liðnu ári og í gegnum árin. Hjá Mími blása ferskir vindar sem færa fullorðnu fólki fleiri spennandi tækifæri til náms og sjálfseflingar. Ég er þess fullviss að Mímir eigi sér bjarta framtíð,“ segir Sólveig.
Stjórn Mímis skipa Eyrún Björk Valsdóttir frá ASÍ, Selma Kristjánsdóttir frá VR, Ragnar Ólason frá Eflingu, Georg Páll Skúlason frá RSÍ og Eyþór Árnason frá stéttarfélaginu Hlíf. Til vara eru Sólveig Lilja Snæbjörnsdóttir frá VR, Hilmar Harðarson frá Samiðn og Sólveig Anna Jónsdóttir frá Eflingu.
Lesa má ársskýrslu og ársreikninga Mímis-símenntunar hér.