Um áramót kjósa margir að líta um öxl, rifja upp atburði liðins árs og horfa til framtíðar, og nýrra tækifæra. Fjölmargir kjósa að hefja nám á ný jafnvel eftir talsvert hlé frá námi. Nýtt ár hefst með látum hjá Mími þar sem finna má fjölbreytta flóru náms og námskeiða.

Meðal spennandi nýjunga hjá Mími eru Leikskólasmiðja og Menntastoðir með stuðningi í íslensku. Báðar þessar námsleiðir eru tilvaldar fyrir þau sem vilja auka færni sína í íslensku samhliða fagtengdu námi.

Skráningar standa nú yfir í Menntastoðir sem eru ein vinsælasta námsleið Mímis og hefur veitt fjölda fólks ný tækifæri í námi. Námið er fyrir einstaklinga, 18 ára og eldri. Þeir sem ljúka námi í Menntastoðum með tilskyldum árangri geta sótt um í undirbúningsdeildir háskólanna, Keili, HR og Bifröst. Námið er í boði bæði í staðnámi og fjarnámi. Stuðningur, eftirfylgni og sigrar einkenna Menntastoðir hjá Mími og þar eru öll velkomin.

Sífellt fleiri sækja námskeiðið Íslenska og atvinnulíf sem er fyrir byrjendur í íslensku þar sem fléttað er saman íslenskunámi og fræðslu um íslenskt atvinnulíf á móðurmáli nemenda.

Náms- og starfsráðgjafar hjá Mími eru boðnir og búnir til að hjálpa fólki að velja sér námsleið við hæfi en úrvalið má líka skoða á vef Mímis, www.mimir.is.

Auðvelt er að  panta samtal við náms- og starfsráðgjafa á vefnum og geta þau farið fram í gegnum síma, fjarfundabúnað eða hér í Mími.

Við vonum að nýtt ár verði ykkur gjöfult og bjart.

Fyrir hönd starfsfólks Mímis,

Sólveig Hildur Björnsdóttir, framkvæmdastjóri