Útskriftir hafa farið fram með óhefðbundnu sniði þetta árið en engin sameiginleg útskriftarathöfn verður haldin eins og venja er. Í stað þess hefur hver hópur fagnað áfanganum saman í sinni heimastofu en tæplega 200 nemendur eru að útskrifast í vor. Við söknum þess vissulega þess að hafa ekki stóra útskriftarathöfn en þessar litlu athafnir hafa ekki verið síður hátíðlegar.
Rut Svavarsdóttir flutti ávarp fyrir hönd nemenda í menntastoðum staðnámi. Rut talaði um að sér hefði komið á óvart hvað námið gekk vel. Hún hefði alltaf talið sér trú um að hún gæti ekki lært en ákvað að láta reyna á námið hjá Mími. Hún kom sjálfri sér heldur betur á óvart og útskrifaðist með 9,7 í meðaleinkunn, trú á sjálfri sér og nýja raunhæfa drauma um framtíðina. Örvar Bessason ávarpaði nemendur fyrir hönd nemenda í menntastoðum dreifnámi. Örvar var að snúa aftur í nám eftir 30 ár á vinnumarkaði. Eðlilega vissi hann ekki við hverju átti að búast en fann sig fljótt í hópnum enda mikil samheldni sem myndast í nemendahópum okkar. Námið gekk vel með aðstoð góðra kennara og starfsmanna Mímis og stefnir Örvar á nám í guðfræði í Háskóla Íslands.
Meðfylgjandi eru myndir frá nokkrum útskriftanna. Við óskum öllum nemendum hjartanlega til hamingju með áfangann og óskum þeim góðs gengis í framtíðinni.