Hlín Rafnsdóttir, nemi í náms- og starfsráðgjöf, er um þessar mundir í starfsnámi hjá Mími – Símenntun. Starfsnámið er undir handleiðslu Kristínar Erlu Þráinsdóttur, náms- og starfsráðgjafa.
Í samtali við Hlín kemur fram að það sé markmið með starfsnámi í náms- og starfsráðgjöf að fá tækifæri til þess að nýta fræðilega námið í raunverulegum aðstæðum. Lokaverkefni Hlínar fjallar um tækifæri og hindranir í stafrænni náms- og starfsráðgjöf innan fullorðinsfræðslunnar. „Mímir er með öfluga starfsemi á sviði framhaldsfræðslu og býr yfir mjög metnaðarfullu og vingjarnlegu starfsfólki sem er gott að læra af. Varðandi námið hefur mig lengi langað að starfa sem náms- og starfsráðgjafi meðal annars vegna þess að náms- og starfsval hefur mikil áhrif á lífsstíl fólks sem mér finnst almennt mjög athyglisvert að pæla í, en fyrir er ég með meistaragráðu í lýðheilsuvísindum.“ Bakgrunnur Hlínar liggur jafnframt í kennslu en hún kenndi félagsfræði við Framhaldsskólann í Mosfellsbæ og Fjölbrautaskóla Suðurlands.