Fimmtudaginn 7. september hélt Mímir upp á 20 ára afmæli sitt í húsakynnum skólans. Fjölbreytt og skemmtileg dagskrá var í boði ásamt veitingum af ýmsu tagi.
Þórunn Lárusdóttir, söngkona, var veislustjóri og hún ásamt Karli Olgeirssyni píanóleikara héldu uppi góðri stemningu. Sólveig Hildur Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Mímis, bauð gesti velkomna og sagði frá starfi Mímis . Hæstvirtur félags- og vinnumarkaðsráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, heiðraði viðstadda með nærveru sinni og flutti ávarp um mikilvægi starfsemi Mímis fyrir samfélagið. Finnbjörn A. Hermannsson forseti Alþýðusambands Íslands, steig síðan á svið og fór meðal annars yfir hvernig starfsemi Mímis hefur þróast í gegnum tíðina, gildi hennar fyrir einstaklinga, vinnumarkað og samfélagið. Að lokum héldu Stella Guðrún, útskrifaður nemandi úr Menntastoðum, og Sigurður Víkingur, núverandi nemandi í Menntastoðum, ræður en þau töluðu bæði um hvernig skólinn hefur gefið þeim byr undir báða vængi og framtíðartækifæri.
Afskaplega góð stemning var í salnum og er augljóst að Mímir hefur snert hug og hjarta margra á þessum tuttugu árum sem skólinn hefur starfað í núverandi mynd.
„Á þessum 20 árum hefur mikið vatn runnið til sjávar og er óhætt að segja að mikil gróska hafi ríkt hjá Mími í gegnum árin. Starfsemin hefur vaxið og dafnað og hafa sjaldan fleiri sótt sér þjónustu hjá okkur. Ég er stolt yfir þeim forréttindum að fá vera hluti af Mímishópnum og er ég þakklát hverri og einni manneskju sem hefur lagt sitt af mörkum til Mímis,“ sagði Sólveig meðal annars í ræðu sinni og þakkaði stjórn og eiganda Mímis, öllu starfsfólki, bæði núverandi og fyrrverandi, kennurum, nemendum og öllum samstarfsaðilum fyrir sína aðkomu að starfseminni í gegnum árin.
„Hjá Mími blása ferskir vindar sem færa nemendum fleiri spennandi tækifæri til náms og sjálfseflingar. Ég er þess fullviss að Mímir eigi sér bjarta framtíð,“ sagði Sólveig að lokum.
Hér má sjá nokkrar myndir frá veislunni.