Í dag undirritaði Mímir samning við Starfsafl og Eflingu stéttarfélag um hæfnigreiningu sex starfa.
Þau störf sem um er að ræða eru sbr. eftirfarandi:
1. Almenn störf og vaktstjórn á skyndibitastöðum ( 2 störf)
2. Hópferðabílstjórar sem fara með vaktstjórn
3. Öryggis- og dyraverðir (2 störf)
4. Smur og dekkjaþjónusta
Afrakstur hæfnigreininganna verða vel skilgreindir starfaprófílar sem nýtast vinnustöðum við ráðningar, starfsþróun, innleiðingu á jafnlaunastaðli, nýliðaþjálfun, frammistöðumat og fleira.
Frammistaða starfsfólks er jú grundvöllur árangurs og frammistaða byggist bæði á því að starfsfólk geti gert það sem ætlast er til og vilji gera það. Hæfnigreining starfa felst í að kortleggja og skilgreina þá hæfni sem mikilvægt er að starfsmaður búi yfir til að árangur náist í starfi. Þess utan geta hæfnigreiningar starfa nýst á margvíslegan máta, s.s:
· Grunnur fyrir gerð námsefnis – og námsbrauta.
· Við skipulag þjálfunar og gerð fræðsluáætlana.
· Við gerð starfsþróunarstefnu og starfsþróunaráætlana.
· Við starfsmannaval og ráðningar.
· Við gerð starfslýsinga.
· Sem viðmið um frammistöðu í starfi sem nota má í frammistöðumati.
Sérfræðingar hjá Mími hafa réttindi til þess að vinna hæfnigreiningar starfa eftir viðurkenndri aðferð sem Fræðslumiðstöð atvinnulífsins hefur innleitt hér á landi. Aðferðin er því mjög gagnleg, skilvirk leið til að koma auga á nauðsynlega hæfni og er þá persónuleg hæfni ekki undanskilin en hún er eitt af því mikilvægasta hjá öflugum starfsmanni.
Aðferðarfræðin sem notuð er við greiningar á störfum byggir á því að skilgreina starfsgreinar sem heild og því endurspeglar starfaprófíllinn sem til verður starfið eins og það er almennt á íslenskum vinnumarkaði þó svo að útfærsla starfsins geti verið með mismunandi hætti hjá mismunandi fyrirtækjum.
Greiningarvinna fer fram á þremur skipulögðum vinnufundum með 10–20 þátttakendum úr atvinnulífinu sem þekkja vel til starfsins eða starfsgreinarinnar. Afurðin lýsir þeirri hæfni sem skiptir megin máli í viðkomandi starfi og má nota við hönnun náms fyrir viðkomandi markhóp eða sem hvata til starfsþróunar.
Afurðir greininganna verða aðgengilegar öllum sem vilja.
Fyrirtæki sem vilja aðstoð við að hæfnigreina störf hjá sér eru hvött til að hafa samband við starfsfólk Mímis í síma 5801800 eða með pósti á netföngin ingajona@mimir.is eða audur@mimir.is