Mímir útskrifar 32 dyraverði
Mímir-símenntun hefur tekið upp samstarf við Reykjavíkurborg og lögregluna á höfuðborgarsvæðinu um skipulag og rekstur námskeiða fyrir dyraverði sem veitir þeim samþykki lögreglu til að starfa við dyravörslu. Í gær miðvikudaginn 16. maí lauk fyrsta námskeiði ársins en þá útskrifuðust 32 dyraverðir með réttindi til að dyravörslu næstu þrjú árin. Að þeim tíma liðnum fá dyraverðir endurnýjun til annarra þriggja ára uppfylli þeir skilyrði lögreglunnar. Dyravarðanámið er ætlað starfandi dyravörðum, þeim sem hyggja á störf í dyravörslu en einnig öðru starfsfólki hótela og veitingahúsa, til dæmis þeim sem vinna næturvaktir.
Fyrr í þessum mánuði endurnýjuðu Reykjavíkurborg, Samtök ferðaþjónustu, fyrir hönd skemmtistaða í Reykjavík, lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og slökkvilið höfuðborgarsvæðisins samkomulag sem miðar að því að bæta samskipti og samstarf þessara aðila og stuðla að ofbeldislausum og öruggum skemmtistöðum í Reykjavík. Í aðgerðaráætlun samkomulagsins er tilgreint að eingöngu þeir sem lokið hafa námskeiði og sem lögreglustjóri hefur samþykkt geti starfað sem dyraverðir.
Nýtt dyravarðanámskeið hefst Mími-símenntun þriðjudaginn 22. maí og lýkur fimmtudaginn 31. maí. Kennsla fer fram á þriðjudögum, miðvikudögum og fimmtudögum frá klukkan 16:30 til 19:25.
Nánari upplýsingar um dyravarðanámskeiðin er að finna á: https://www.mimir.is/is/nam/dyravardanamskeid