Þann 9. september síðast liðinn hófst kennsla á nýrri námsleið, Færni á vinnumarkaði, hjá Mími-símenntun en námið er ætlað fólki með fötlun sem er að stíga sín fyrstu skref inn á almennan vinnumarkað. Kennt er samkvæmt námskrá sem Fræðslumiðstöð atvinnulífsins hefur gefið út í framhaldsfræðslu.

Námið er hluti af vegferð félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins í því að auka náms- og starfstækifæri fyrir fólk með fötlun. Fjölmennt, Vinnumálastofnun og Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins stóðu að þróun námsleiðarinnar og fá símenntunarmiðstöðvar framkvæmd námsins í hlut.

Nemendur munu stunda 70 klukkustunda nám hjá Mími til að læra bóklegan hluta um færni á vinnumarkaði. Saman við námið verður fléttað 110 klukkustunda starfsþjálfun sem Vinnumálastofnun heldur utan um í samstarfi við vinnustaði. Sex námslýsingar liggja nú þegar fyrir, þ.e. starfstengt nám við félags- og þjónustustörf, á lager eða vöruhúsi, við endurvinnslu, á leikskóla, í ferðaþjónustu eða í verslun.

Átta nemendur hófu nám í Mími en símenntunarmiðstöðvar um land allt taka þátt í verkefninu. Að námi loknu fá þátttakendur staðfestingu á hæfni með Fagbréfi atvinnulífsins.

Fyrr í mánuðinum heimsótti Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, Mími til að fagna upphafi þessa nýja náms. 

Hér má sjá frétt frá Vísir.is þar sem meðal annars var rætt við tvo nemendur þegar Guðmundur Ingi kom í heimsókn.