Mímir fékk styrk frá Þróunarsjóði framhaldsfræðslu til að vinna námsefni í íslensku fyrir starfsfólk af erlendum uppruna sem vinnur við umönnun og hjúkrun á hjúkrunarheimilum. Samstarfsaðilar Mímis í verkefninu eru Helix Health sem er tæknifyrirtæki á sviði velferðarþjónustu og Vigdísarholt sem rekur hjúkrunarheimilin Sunnuhlíð, Seltjörn og Skjólgarð.

Námsefnið byggir á smáforritinu Iðunni sem Helix þróaði en það er notað til rauntímaskráningar á umönnun og hjúkrunarverkum á hjúkrunarheimilum. Markmið verkefnisins er að byggja á langri reynslu hjá Mími af starfstengdum íslenskunámskeiðum og þróa og hanna námsefni og námskeið sem nýtist á starfstengdum íslenskunámskeiðum og sem byggir á raunefni úr smáforritinu Iðunni og samstarfi við Vigdísarholt. Námsefnið mun hjálpa fólki af erlendum uppruna sem starfar á hjúkrunarheimilum að samþætta starfstengdan orðaforða við aukna færni í samskiptum á íslensku við jafnt íbúa og samstarfsfólk. Sólborg og Vanessa, verkefnastjórar verkefnisins hjá Mími heimsóttu Helix í vikunni og hittu Þorbjörgu, vörustjóra HelixHealth þar sem ánægja ríkti yfir samstarfinu.