Mímir-símenntun og Háskóli Íslands hafa gert með sér samstarfssamning sem hefur það markmið að veita þátttakendum í verkefninu Spretti innan HÍ aðgang að náms- og starfsráðgjöf á vegum Mímis. Sprettur er nýlegt verkefni á kennslusviði HÍ sem styður við og undirbýr framhaldsskólanemendur með innflytjendabakgrunn fyrir háskólanám. Markmið verkefnisins er að stuðla að jöfnum tækifærum til menntunar og fjölga háskólanemum úr hópi innflytjenda.
Að sögn Kristínar Erlu Þráinsdóttur, náms- og starfsráðgjafa hjá Mími, fara þarna saman styrkleikar Mímis og Háskóla Íslands, sem hafa það sameiginlega markmið að stuðla að aukinni menntun í samfélaginu með þéttum stuðningi við nemendur þegar kemur að námsvali. Nílsína Larsen Einarsdóttir, verkefnisstýra Spretts tekur undir þau orð og bætir við: "Það er sameiginlegur ávinningur okkar og samfélagsins alls að skapa fjölbreytt tækifæri til stuðnings og hvatningar til menntunar“.