Hin eftirsóttu starfslokanámskeið Eflingar hafa verið haldin í samstarfi við Mími um árabil og á síðasta námskeiði sóttu yfir 100 félagsmenn Eflingar þau.

Starfslokanámskeið Eflingar eru í boði á íslensku, ensku og pólsku og hafa verið félagsmönnum að kostnaðarlausu en auk þess hafa makar einnig verið boðnir velkomnir.

Starfslok hafa mikil áhrif á líf fólks og er stórt skref að stíga en á námskeiðunum gefst félagsmönnum kostur á að undirbúa sig fyrir farsæl starfslok og tímamót í lífinu. Með góðum undirbúningi er hægt að takast á við nýtt hlutverk á jákvæðan hátt sem síðan stuðlar að innihaldsríku lífi að starfi loknu. Á námskeiðinu fjalla sérfræðingar til að mynda um iðju og lífsleikni eftir starfslok, sjúkratryggingar, lífeyrisréttindi, réttindi hjá stéttarfélaginu og svara fyrirspurnum frá þátttakendum. Einnig er fjallað um hvað er í boði í félagsstarfi og fræðslu fyrir fólk sem er komið á besta aldur.

Ánægja ríkir með Starfslokanámskeið Eflingar og ljóst að eftirspurn eftir námskeiðum sem þessum fer vaxandi enda mikilvægt fyrir öll að vera vel upplýst og tilbúin í gott og gefandi líf þegar starfslok nálgast.