Í lok ágúst 2023 fóru tveir starfsmenn Mímis til Helsinki í Finnlandi í Erasmus+ Mobility Activity. Spring House Oy tók á móti starfsmönnum Mímis. Heimsóknin snérist um að skilja og læra um inngildingarstefnu og -aðgerðir Finnlands og í því samhengi um þjónustu Spring House. Heimsóknin fól í sér kynningar og umræður um ýmsa þætti inngildingar fullorðinna innflytjenda í Finnlandi þar á meðal tungumálaþjálfun, umsjón og ráðgjöf, viðurkenningu á fyrra námi, starfsþjálfun sem og aðferðir til að aðstoða innflytjendur við að aðlagast finnska vinnumarkaðinum.

Auk þess heimsóttu starfsmenn Mímis prófamiðstöðina Testipiste þar sem kynnt voru stöðupróf og aðferðir til að meta hæfni og færni innflytjenda þegar þeir koma til Finnlands.

Miklar umræður um besta verklag („best practices“) veittu þátttakendum mikilvæga innsýn og hagnýta þekkingu sem allir þátttakendur Erasmus+ áætlunarinnar geta nýtt sér í tengslum við starf sitt.