Í síðustu viku komu tveir gestir frá Spáni og Austurríki í gegnum Erasmus verkefnið „Job Shadowing“ í heimsókn í Mími. Gestirnir voru tvær reynslumiklar konur, þær Clara Ramos Iglesias frá Spáni, skólastjóri del CEPA San Ildefonso - La Granja og DIin og Karin Okonkwo-Klampfer, verkefnastjóri í Lýðháskóla í Vínarborg. Þær kynntu störf sín og starfsemi skólanna sem þær starfa hjá en megintilgangur þeirra var að kynna sér starfsemi Mímis.

Í kynningu fyrir starfsfólk Mímis sögðu þær okkur frá sínum skólum og opinberum kerfum á Spáni og Austurríki hvað varðar fullorðinsfræðslu. Einnig hvernig tekið er á móti fólki sem er að hefja nám og hvernig fólk er hvatt til að halda áfram að mennta sig í kjölfar erfiðleika og áskoranna í lífinu.

Á meðan á dvöl þeirra stóð fylgdust þær með vinnu okkar hér í Mími (náms- og starfsráðgjöf, vinnu verkefnastjóra, bókhaldi, rafrænum skráningum o.fl.) og kynntu sér einnig starfsemi og námskeið Mímis fyrir innflytjendur og flóttamenn (m.a. Landneminn. Samfélagsfræðsla fyrir flóttafólk og námsleiðina Íslenska og atvinnulíf fyrir útlendinga). Þær heimsóttu MML (Miðja máls og læsis) til að kynna sér verkefnið Brúarsmiðir, en þar er leitast við að byggja brú á milli fjöltyngdra barna, foreldra þeirra og starfsmanna skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar.

Vonandi getum við notað þá þekkingu sem við höfum deilt með hverju öðru í framtíðinni og haldið áfram farsælu samstarfi.