Mímir í samvinnu við NTV býður upp á Skrifstofuskóla fyrir pólskumælandi þar sem starfstengdri íslensku er fléttað saman við námið. Námsbrautin hefst 24. október nk. og lýkur þann 27. janúar 2023. Um er að ræða styrkhæft nám sem Fræðslusjóður og starfsmenntasjóðir niðurgreiða samkvæmt skilyrðum.

„Með þessu námi erum við að bregðast við ákalli frá vinnumarkaðnum um starfstengda íslenskukennslu í vottuðum námsbrautum Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins,” segir Joanna Dominiczak, verkefnastjóri hjá Mími. „Þetta er í annað skiptið sem við bjóðum upp á Skrifstofuskóla með þessu sniði í samstarfi við NTV og hafa nemendur lýst yfir ánægju sinni á náminu sem er fjarkennt.“

Skrifstofuskólinn hefur notið mikilla vinsælda í áraraðir en um er að ræða almennt skrifstofu- og tölvunám sem hentar öllum sem vilja styrkja sig á vinnumarkaði. „Við teljum mikla þörf fyrir námið á meðal pólskumælandi íbúa á Íslandi enda eru hraðar breytingar á vinnumarkaði sem við þurfum að svara,” segir Joanna. „Námið byggir að miklu leyti á verklegum æfingum og hagnýtum verkefnum sem miða að því að búa nemendur sem best undir almenn skrifstofustörf og skiptir íslenskan þar miklu máli. Markmiðið er að auka þekkingu og hæfni nemenda í almennum skrifstofustörfum með áherslu á tölvuvinnslu eins og Excel og Word, bókhald og skrifstofutækni.“

Í náminu er sérstök áhersla lögð á að nemendur hljóti góða þjálfun í íslensku með það að markmiði að opna nemendum dyr að atvinnulífinu. „Við teljum mikilvægt að efla nemendur í samskiptum á íslensku sem snúa að skrifstofustörfum. Kennsla í Skrifstofuskólanum fer samt sem áður fram á pólsku enda vitum við að auðveldara sé að setja sig inn í flókin málefni á eigin tungumáli.“

Aðspurð segir Joanna að eftirspurn íslenskunámskeiða sé mikil hjá Mími og ljóst að atvinnurekendur og einstaklingar í samfélaginu séu að vakna til vitundar um mikilvægi hennar fyrir fólk sem kemur frá öðrum málsvæðum.

„Við erum á fullu þessa dagana að taka á móti umsóknum og fer hver að verða síðastur til að sækja um. Glugginn er opinn og því tilvalið að taka stökkið,“ segir Joanna.

 

Nánari upplýsingar má finna hér.