„Þekking á sér engin landamæri og við getum alltaf bætt í þekkingarsjóðinn – aukin þekking gerir okkur alltaf betri og meiri útgáfu af okkur sjálfum. Við þurfum sífellt að tileinka okkur ný vinnubrögð og búa okkur undir nýja tækni og nýja siði“, sagði Sólveig Hildur Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Mímis, meðal annars þegar hún ávarpaði nemendur við útskrift Mímis sem fram fór við hátíðlega athöfn í Grafarvogskirkju þann 17. desember. Í þetta sinn útskrifuðust rúmlega 100 nemendur; 82 af námsbrautum og 20 úr raunfærnimati.
Sólveig Hildur gerði þær samfélagslegu áskoranir sem samfélagið stendur frammi fyrir vegna fjórðu iðnbyltingarinnar að umtalsefni í ávarpi sínu og minnti á mikilvægi sí- og endurmenntunar í því samhengi: „Tækifærin sem felast í þessum tækniframförum eru óteljandi og mikilvægt að einstaklingar, vinnustaðir og starfsmenn grípi þau. Mikilvægi sí- og endurmenntunar er ótvírætt og segja má að menntakerfið sé að vissu leyti límið sem bindur allt saman.“
„Þegar mér var bent á Mími, þá vaknaði eitthvað innra með mér. Og þess vegna stend ég hér,“ sagði Ívar Guðmundsson, útskriftarnemi úr Menntastoðum, í ávarpi sínu fyrir hönd útskriftarnemenda. Ívar talaði um að hann ætti Mími margt að þakka. Hjá Mími hefði hann meðal annars fengið sjálfstraust til að vinna að því að láta drauma sína rætast og elta ný tækifæri. Þá hrósaði Ívar starfsfólki, kennurum, fyrirkomulagi námsins og öllum aðbúnaði hjá Mími.
Mímir óskar öllum útskriftarnemendum og fjölskyldum þeirra til hamingju með áfangann og færir öllum hinar bestu óskir um gleðilega jólahátíð og gæfuríka framtíð.