Ferilskrá og kynningarbréf

Ferilskrá og kynningarbréf geta verið öflug verkfæri þegar kemur að atvinnuleit þar sem umsækjandi er stöðugt að reyna að koma sér framfæri við álitlega atvinnurekendur.

Gott er að venja sig á að halda utan um öll þau gögn sem geta nýst í atvinnuleitinni og uppfæra reglulega verði einhver breyting á. Má þar nefna ferilskrá, kynningarbréf, prófskírteini, leyfisbréf, staðfestingu á námskeiðum og svo framvegis.



Ferilskrá

Hvers vegna ferilskrá?

  • Tilgangurinn með ferilskrá er að vekja áhuga á sjálfum sér í tiltekið starf og opna þannig dyrnar að mögulegu atvinnuviðtali. Góð ferilskrá getur gert gæfumun en það má segja að hún sé markaðssetning á umsækjanda. ​

  • Ferilskrá er stutt kynning á umsækjanda þar sem helstu upplýsingar um reynslu og þekkingu koma fram. Mikilvægt er að vanda til verks og gefa sér tíma þegar ferilskrá er sett upp. Huga þarf að málfari, frágangi og útliti, ásamt því að hafa hana ekki of langa en gott er að miða við 1-2 blaðsíður. Algeng mistök eru að hafa ferilskrár of skrautlegar, langar eða ýktar. Það er því gott ráð að fá einhvern til að lesa yfir að verki loknu.​

  • Það getur líka verið gott að eiga grunnferilskrá sem er svo hægt að aðlaga hverju sinni þegar sótt er um starf, sama gildir um kynningarbréf (eru lifandi skjöl).​

Innihald ferilskrár - hvað þarf að vera

Eftirfarandi upplýsingar þurfa að koma fram í ferilskrá:​

  1. Persónuupplýsingar koma fyrst og geta þær verið mis ítarlegar. Það er hins vegar gott að fram komi nafn, kennitala, heimilisfangs, ásamt virku símanúmeri og netfangi svo hægt sé að hafa samband. ​

  2. Þegar námsferill er skráður er nýjasta námið skráð fyrst. Gott er að setja inn tímabil. Nafn skóla og náms, ásamt gráðu ef við á. Óþarfi er að setja inn allt formlegt nám. Sem dæmi er hægt að sleppa því að setja inn grunnskóla sé viðkomandi kominn með frekari menntun.​

  3. Sama gildir um starfsreynslu, það er að setja núverandi eða nýjasta starfið fyrst. Gott er að setja inn tímabil, nafn fyrirtækis og stöðu viðkomandi. Einnig getur verið gott að lista upp helstu verkefni og ábyrgð í starfi, án þess þó að hafa það of langt. Aftur gildir að ekki þarf að setja inn öll störf. 

  4. Það er einstaklingsins að velja hvaða upplýsingar hann setur í ferilskrána og er þá gott að hafa í huga hvort og hversu mikið þær eiga erindi við það starf sem sótt er um. Aðrar upplýsingar sem getur því verið gott að koma með eru til dæmis námskeið sem viðkomandi hefur sótt, tölvu- og tungumálakunnátta, ásamt áhugamálum og félagsstörfum. Sérstaklega er gott að minnast á þessi atriði ef þau geta komið að notum í því starfi sem sótt er um.​

  5. Mikilvægt er að gefa upp meðmælendur sem hægt er að hafa samband við og vera búin að fá leyfi frá þeim til að setja þá á blað. Gott er að gefa upp 1-2 meðmælendur og hafa þá með nafn, símanúmer, fyrirtæki og stöðu viðkomandi. Ekki er æskilegt að notast við vini eða vandamenn sem viðmælendur.​

  6. Einnig er orðið algengara að umsækjendur setji inn einhvers konar markmið (1-3 línur) tengd starfi og persónulegum þroska.​

 

Hvers vegna kynningarbréf?

  • Tilgangurinn með kynningarbréfi er að gefa betri mynd af umsækjanda, hver hann er og hvert hann stefnir. Það má í raun líkja ferilskrá við beinagrind og með kynningarbréfi sé verið að setja kjöt á beinin. Hér gefst umsækjanda því tækifæri til að vekja betur athygli á sjálfum sér og rökstyðja það sem fram kemur í ferilskránni.​

  • Kynningarbréf fer meira á dýptina og er oft skrifað fyrir hvert og eitt starf sem sótt er um. Þar reynir umsækjandi að sýna fram á þekkingu og færni sem nýtist vel í tilteknu starfi. Vanda þarf málfar og uppsetningu ásamt því að hafa bréfið ekki of langt, gjarnan er miðað við að hámarki eina blaðsíðu. ​

Innihald kynningar bréfs - hvað þarf að vera

Eftirfarandi upplýsingar þurfa að koma fram í kynningarbréfi:​

  1. Efst skal koma dagsetning, nafn fyrirtækis og nafn viðtakanda. Ef nafn viðtakanda er óþekkt er til dæmis hægt að hefja bréfið á ´Kæri viðtakandi´ eða ´Til þess er málið varðar´.​

  2. Í bréfinu sjálfu er tekið fram hvaða starf er sótt um og hvers vegna, hvað vakti áhuga þinn? Síðan er gott að útskýra hvernig hæfni og þekking umsækjanda geti komið að notum í starfinu, samanber þær hæfnikröfur sem starfið krefst. Einnig getur verið gott að nefna áhuga á atvinnuviðtali svo hægt sé að gera betur grein fyrir sér.​

  3. Í lokin er kveðja og undirskrift umsækjanda. Einnig eru upptalin fylgigögn, ef við á, sem eru send með bréfinu (prófskírteini og fleira)

Markmið atvinnuviðtals

  • Atvinnuviðtal getur skipt sköpum um hvort þú fáir boð í annað viðtal eða landir starfinu. ​

  • Markmiðið er að fá tækifæri til að koma á framfæri frekari upplýsingum um sjálfan þig á skýran og greinagóðan hátt, þar sem hægt er að útskýra betur það sem fram kom í ferilskrá og kynningarbréfi. Auk þess getur þú nýtt atvinnuviðtalið til að afla þér nánari upplýsinga um starfið og fyrirtækið sem vonandi gerir þér kleift að átta þig á því hvort það henti þér og þínum þörfum, gildum og áhuga. ​

  • Á sama tíma aflar atvinnurekandi aukinna upplýsinga um þig og þína getu til þess að gegna tilteknu starfi. Oft eru þetta upplýsingar sem koma ekki fram á umsókninni sjálfri. Þarna er verið að meta hvort þú mætir þeim kröfum sem starfið krefst ásamt því að kanna þætti eins og persónulegt fas, viðbrögð í tali, styrkleika og veikleika. Stór þáttur af atvinnuviðtalinu er líka að sjá og fá tilfinningu fyrir því hvernig þú myndir passa inn í starfsmannahópinn.​

Undirbúningur fyrir atvinnuviðtal

  • Margir kvíða atvinnuviðtalinu enda getur verið ákveðin pressa að markaðssetja sjálfan sig sem starfskraft í tiltekið starf. Góður undirbúningur getur minnkað kvíðann verulega.​

  • Að afrita atvinnuauglýsinguna þegar þú sækir um er góð hugmynd því hún mun verða tekin út þegar á líður. Þannig er hægt að líta aftur yfir og rifja upp hverju atvinnurekandi leitast eftir og þannig undirbúið sig enn betur.​

  • Atvinnuviðtöl gangar oftar en ekki út á samtal og þess vegna getur verið mikilvægt að ná góðu flæði í samræðunum. Gott er ef þú getur æft þig heima og reynt að sjá fyrir þér viðtalið – hvaða spurningar gætu komið upp og hvernig ætlar þú að svara þeim? Er eitthvað sérstakt sem þú vilt koma á framfæri eða spyrja um og þá hvað? Einnig getur verið góð regla að kynna sér fyrirtækið og starfsemi þess. ​

  • Gott er að vera búin að kynna sér staðsetningu fyrirtækisins og hvenær þarf að leggja af stað til að vera mætt tímanlega. Sumir vilja einnig hafa með sér afrit af ferilskrá, kynningarbréfi eða öðrum gögnum sem gætu komið að notum, og er þá gott að vera búin að taka þau saman. Að lokum er gott að klára að taka til fatnað kvöldinu áður, reyna að hvíla sig og fá nægan svefn.​

Í atvinnuviðtalinu

  • Mæta stundvíslega​

  • Heilsa og kveðja með handabandi (ef við á)​

  • Vera kurteis​

  • Sýna áhuga á fyrirtækinu / starfinu​

  • Huga að líkamsbeitingu​

  • Bera sig vel / ekki vera niðurlút​

  • Ná augnsambandi​

  • Vera jákvæð/ur og brosa stöku sinnum​

Hvað skal varast í atvinnuviðtali

  • Ekki segja ,,Ég get gert hvað sem er”​

  • Ekki tala illa um fyrri atvinnurekendur​

  • Ekki koma að neikvæðum upplýsingum um sjálfan þig​

  • Ekki ræða málefni sem eru starfinu óviðkomandi​

  • Ekki vera með tyggjó í viðtali​

  • Ekki taka annan aðila með þér í viðtalið (nema við eigi)​

  • Ekki vera með kveikt á símanum​

Þetta er ekki tæmandi listi​

Dæmi um spurningar

Atvinnuleitandi:​

  • Hvað felst nákvæmlega í starfinu?​

  • Hvernig er með sveigjanleika? ​

  • Hver er vinnutíminn?​

  • Hvaða möguleika hefur starfsfólk á starfsþróun / endurmenntun?​

Atvinnurekandi:​

  • Hvers vegna sækir þú um þetta starf?​

  • Hvers vegna lauk seinasta starfi?​

  • Hverjir eru þínir styrkleikar og veikleikar?​

  • Hvernig leysir þú úr ágreiningi / vandamáli á vinnustað, dæmi?

Rafrænt atvinnuviðtal

Þrátt fyrir að notkun rafrænna atvinnuviðtala hefur aukist, og mun halda áfram að aukast, er gott að hafa í huga að enn gilda sömu reglur og ef um almennt atvinnuviðtal væri að ræða. ​

Það þarf hins vegar að huga að fleiri atriðum þegar kemur að rafrænu atvinnuviðtali og undirbúningi þess svo ekki verði truflun í viðtalinu sjálfu:​

  • Skoða og prófa forritið sem á að nota ​

  • Huga að bakgrunni, lýsingu, staðsetningu, truflun og hljóði . Ekki hafa óreiðu í bakgrunni og gæta þess að hlutir sem ekki eiga að sjást sjáist ekki. ​

  • Fatnaður – ekki vera í sama lit og bakgrunnur​

  • Hafa útprentaða ferilskrá og kynningarbréf eða hafa opið í tölvunni​

  • Vera með punkta til hliðsjónar svo ekkert gleymist​

  • Hafa símanúmer viðmælanda ef eitthvað kemur upp á​

  • Horfa í myndavélina og ná augnsambandi​

  • Mæta stundvíslega ​

Var efnið á síðunni hjálplegt?